1. Gildissvið skilmála
Skilmálar þessir gilda um allar vörur og þjónustu sem sem Annerud Media AB (hér eftir Annerud Media), Org. nr. 559209-8163, Kungsbacka, Svíþjóð, framleiðir og selur. Skilmálarnir gilda milli Annerud Media og þeirra einstaklinga sem kaupa vörurnar og þjónustuna (hér eftir viðskiptavinir). Hinir almennu skilmálar sem finna má í kafla 2 í þessum skilmálum gilda nema annað komi fram í sértækari ákvæðum. Kafli 3 inniheldur sérstakar reglur um Afreksskólann, kafli 4 inniheldur sérstakar reglur sem gilda um The Zone Academy og kafli 5 inniheldur sérstakar reglur sem gilda um The Zone Mastery.
2. Almennir skilmálar
2.1 Gildissvið
Þessir almennu skilmálar eiga við um allar vörur og þjónustu sem Annerud Media selur nema annað komi sérstaklega fram í skilmálum fyrir tilteknar vörur eða þjónustu.
2.2. Fyrirkomulag sölu
Annerud Media býður vörurnar og þjónustuna til sölu á heimasíðu sinni eða með öðrum rafrænum hætti. Viðskiptavinir geta þar keypt vörurnar og þjónustuna í gegnum örugga greiðslusíðu. Þegar greiðsla hefur réttilega borist fær viðskiptavinur tölvupóst innan sólarhrings þar sem honum eru veittar þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar svo hann geti fengið rafrænan aðgang að hinu keypta efni.
Viðskiptavinum getur boðist að greiða fyrir vörur eða þjónustu með dreifingu greiðslna í stað eingreiðslu. Ef viðskiptavinir samþykkja að kaupa vörur eða þjónustu með greiðsludreifingarsamningi þá munu eftirfarandi greiðslur vera dregnar af kortum þeirra á tilskildum tímapunktum. Ef greiðsla fer ekki í gegn af einhverri ástæðu þá mun greiðslumiðlunarkerfið gera allt að þrjár tilraunir til að keyra greiðsluna í gegn á næstu dögum. Ef þriðja tilraunin til að framkvæma greiðslu tekst ekki þá áskilur Annerud Media sér rétt til að loka aðgangi viðskiptavinar að hinum keyptu vörum og þjónustu.
Ef viðskiptavinur getur ekki á einhverjum tímapunkti innt af hendi greiðslu sem er hluti af greiðsludreifingarsamningi þá er hann samt sem áður skuldbundinn til að standa við og greiða upp greiðsludreifingarsamninginn að fullu eins og samþykkt hafði verið.
2.3 Hugverkaréttur
Annerud Media er eigandi og rétthafi alls efnis sem er innifalið í, boðið upp á eða er aðgengilegt í gegnum kaup á öllum vörum og allri þjónustu sem fyrirtækið býður upp á, þar með talið myndbanda, hljóðskráa, skjala, ljósmynda, texta og alls annars efnis, á hvaða formi sem það kann að vera, bæði samkvæmt íslenskum og sænskum lögum og samkvæmt alþjóðlegum reglum. Það er með öllu óheimilt, nema með skriflegu leyfi frá Annerud Media að fjölfalda, gefa út, dreifa, flytja, sýna eða veita öðrum aðgang að vörunum eða þjónustunni, eða nokkru efni þeirra að hluta eða í heild. Brot á hugverka- og höfundarrétti Annerud Media vegna efnis þessa er refsiverð háttsemi og getur leitt til skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum og þjóðarétti.
2.4 Brot á skilmálunum
Ef viðskiptavinur brýtur gegn skilmálum þessum getur Annerud Media kosið að loka aðgangi viðskiptavinar að keyptum vörum þeirra eða aðgengi að þjónustu. Annerud Media er heimilt að rifta samningnum um aðgang viðskiptavinar að vörum sínum og þjónustu án fyrirvara ef viðskiptavinur brýtur með alvarlegum hætti gegn skilmálum þessum að mati Annerud Media.
2.5 Firring á ábyrgð
Vörurnar og þjónustan sem eru veittar af Annerud Media eru framleiddar með það að markmiði að veita viðskiptavinum aðgang að ráðgjöf og tillögum um það hvernig unnt er að ná betri árangri í íþróttum og annars konar líkamsrækt. Ef viðskiptavinir kjósa að fylgja þeim ráðum og tillögum sem koma fram í vörunum eða þjónustunni við æfingar, keppni eða annars konar líkamlega áreynslu þá gera þeir það á eigin ábyrgð. Annerud Media og Ásdís Hjálmsdóttir Annerud (hér eftir Ásdís) eru ekki og verða ekki talin á nokkurn hátt ábyrg fyrir mögulegu tjóni eða skaða sem viðskiptavinir kunna að verða fyrir við að fylgja þeim tillögum eða ráðgjöf sem námskeiðið býður upp á.
Þá getur Annerud Media á engan hátt ábyrgst eða tryggt að viðskiptavinir nái tilteknum árangri eða bætingu sem þeir sækjast eftir, og hvorki Annerud Media né Ásdís bera á nokkurn hátt fébótaábyrgð komi til þess að viðskiptavinir nái ekki þeim árangri sem þeir voru að vonast eftir.
3. Skilmálar fyrir Afreksskólann
Afreksskólinn er átta vikna netnámskeið sem samanstendur af átta einingum (e. „modules“), innan hverrar einingar eru myndbönd, hljóðskrá og verkefni á PDF formi. Höfundur efnis og stjórnandi námskeiðsins er Ásdís. Þeir viðskiptavinir sem kaupa námskeiðið munu fá sendan hlekk og innskráningarupplýsingar innan sólarhrings frá þeim tíma sem þeir kaupa námskeiðið.
Þegar viðskiptavinur skráir sig inn fær hann aðgang að fyrstu einingunni. Í hverri viku fær viðskiptavinur svo aðgang að nýrri einingu og tölvupóst til að láta vita að það hafi opnast á nýja einingu. Þannig mun það taka sjö vikur að fá aðgang að öllu námskeiðinu frá því að viðskiptavinur kaupir aðgang að námskeiðinu. Eftir að viðskiptavinur hefur hlotið aðgang að öllu efni námskeiðsins þá heldur hann þeim aðgangi áfram. Þeir sem hafa einu sinni keypt aðgang að námskeiðinu fá aðgang að öllum uppfærslum og aukaefni.
Ef viðskiptavinur er óánægður með kaup sín á námskeiðinu þá býðst honum að fá fulla endurgreiðslu án nokkurra skilyrða á fyrstu tveimur vikunum (14 dögum) eftir að greiðsla hefur borist.
4. Skilmálar fyrir The Zone Academy
The Zone Academy er félagsaðild veitt í áskrift sem veitir aðgang að ýmsu efni og upplýsingum sem er ætlað fyrir íþróttafólk sem hefur það markmið að bæta hugrænan hluta þjálfunar og íþróttaframmistöðu sinnar. Fyrir áskriftargjald, greitt annaðhvort mánaðarlega eða á hálfs árs fresti, fá meðlimir með virka áskrift aðgang að efni og þjálfun sem er eingöngu fyrir áskrifendur. Innifalið í þessum aðgangi er meðal annars myndbönd, hljóðskrár og skjöl sem eru ekki fáanleg annars staðar ásamt aðgengi að þjálfunartímum „í beinni“ með Ásdísi Hjálmsdóttur Annerud.
Greiðsla fyrir áskriftina er annaðhvort framkvæmd mánaðarlega eða á hálfs árs fresti með kreditkortum viðskiptavina og greiðslur er framkvæmdar með sjálfvirkum hætti á tilskildum tíma. Ef greiðsla fer ekki í gegn af einhverri ástæðu þá mun greiðslumiðlunarkerfið gera allt að þrjár tilraunir til að keyra greiðsluna í gegn á næstu dögum. Ef þriðja tilraunin til að framkvæma greiðslu tekst ekki þá áskilur Annerud Media sér rétt til að loka aðgangi viðskiptavinar að félagsaðild hans.
Viðskiptavinir sem greiða fyrir sex mánaða áskrift og eru óánægðir með kaup sín á félagsaðildinni eiga rétt á fullri endurgreiðslu án nokkurra skilyrða á fyrstu tveimur vikunum (14 dögum) eftir að fyrsta greiðsla hefur borist.
5. Skilmálar fyrir The Zone Mastery
The Zone Mastery er þriggja mánaða þjálfunaráætlun sem veitir aðgang að ýmsu efni og upplýsingum sem er ætlað fyrir íþróttafólk sem hefur það markmið að bæta hugrænan hluta þjálfunar og íþróttaframmistöðu sinnar. Viðskiptavinir geta annaðhvort greitt þjálfunaráætlunina að fullu eða skipt greiðslunni í þrjár mánaðarlegar greiðslur. Innifalið í þjálfunaráætluninni, í þá þrjá mánuði sem hún varir, er áskrift að The Zone Academy, aðgangur að Afreksskólanum og einkatímar með Ásdísi Hjálmsdóttur Annerud.
Greiðsla fyrir þjálfunaráætlunina er annaðhvort framkvæmd að fullu eða í þremur mánaðarlegum greiðslum sem framkvæmdar eru með kreditkorti viðskiptavina með sjálfvirkum hætti á tilskildum tíma. Ef greiðsla fer ekki í gegn af einhverri ástæðu þá mun greiðslumiðlunarkerfið gera allt að þrjár tilraunir til að keyra greiðsluna í gegn á næstu dögum. Ef þriðja tilraunin til að framkvæma greiðslu tekst ekki þá áskilur Annerud Media sér rétt til að loka aðgangi viðskiptavinar að þjálfunaráætlun hans.
Ef viðskiptavinur er óánægður með kaup sín á þjálfunaráætluninni þá býðst honum að fá fulla endurgreiðslu án nokkurra skilyrða á fyrstu tveimur vikunum (14 dögum) eftir að fyrsta greiðsla hefur borist.